Wilkie Collins

Wilkie Collins eða William Collins eins og hann hét réttu nafni var með vinsælustu rithöfundum Englendinga á 19. öld. Hefur hann oft verið nefndur faðir ensku sakamálasögunnar, sem verður þó að telja vafasamt enda byggði Collins sjálfur að einhverju leyti á sögum Edgars Allans Poe og annarra. Hann er þó almennt talinn vera fyrsti eiginlegi sakamálarithöfundurinn sem naut almennrar hylli. Og þrátt fyrir að hann hafi látist fyrir meira en hundrað árum er enn verið að lesa sögur hans og gera kvikmyndir eftir þeim.

Wilkie fæddist í London árið 1824 inn í listhneigða fjölskyldu. Faðir hans, William Collins, var þekktur landslagsmálari og afi hans í móðurætt var einnig nokkuð þekktur listmálari á sínum tíma. Voru foreldrar hans vel stæðir og hann ásamt með einum bróður ólst upp við mikið ástríki foreldra sinna.

Wilkie var alla tíð frekar smár og pasturslítill og átti við nokkurt heilsuleysi að stríða. Þá var höfuðkúpa Wilkies eilítið einkennilega sköpuð, án þess þó að það hefði einhver líkamleg einkenni í för með sér. Hafði það þó töluverð áhrif á Wilkie og má sjá þess merki í mörgum bóka hans en þar rekumst við oft á fólk sem er óvenjulegt og/eða fatlað og eru þær persónur venjulega jákvæðar.

Foreldrum Wilkies var umhugað um menntun barna sinna og sáu til þess að þeir bræður hlytu góða menntun. Til að byrja með fengu þeir kennara heim en svo þegar Wilkie var ellefu ára gamall var hann sendur í skóla. Síðar flutti fjölskyldan búferlum til Ítalíu og þar hóf Wilkie að leggja stund á listmálaranám. Dvaldi fjölskyldan á Ítalíu í tvö ár.

Frá 1841–1846 starfaði Wilkie á skrifstofu fyrirtækis sem flutti inn te. Það var á þessum árum sem hann hóf að skrifa sín fyrstu skáldverk. Fyrsta sagan hans leit dagsins ljós árið 1843 og nefndist hún The Last Stagecoachman. Vakti hún takmarkaðan áhuga og ekki fyrirsjáanlegt að Wilkie gæti haft viðurværi sitt af ritstörfum. Hann ákvað því að leggja fyrir sig eitthvað ábatasamara og hóf laganám. Ekki var þó áhuginn mikill á náminu og samhliða því vann hann að fyrstu stóru skáldsögu sinni, Antonina; eða Fall Rómar. Kom hún út 1850. Ári síðar útskrifaðist hann svo sem lögfræðingur. Starfaði hann aldrei sem slíkur en þó mun námið hafa komið sér vel þegar hann hóf að skrifa sakamálasögur. Í millitíðinni (1847) hafði faðir Wilkies dáið og tók hann þá til við að skrásetja ævisögu hans sem kom út 1848.

Árið 1851 bar fundum hans og hins þekkta rithöfundar Charles Dickens saman. Höfðu þeir báðir mikinn áhuga á leikhúsi og kunningsskapur þeirra sem kom upp úr afskiptum þeirra af áhugaleikhúshópum endaði með ævilangri vináttu. Þar sem þeir voru báðir ákafir bókmenntamenn ákváðu þeir að leggja saman í púkk og hefja samstarf. Skrifuðu þeir sögur og greinar saman í tímarit Dickens, Household Worlds. Lærði Wilkie mikið af hinum virta bókmenntasnillingi, sérstaklega hvað varðaði húmor og persónusköpun.

Árið 1858 kynntist Wilkie Caroline Gaves sem var ekkja og tókust með þeim ástir. Fylgdust þau að alla ævi eftir það. Í sögunni The Woman in White nýtti hann sér hvernig kynnum þeirra bar að. Þá átti hann einnig í sambandi við konu að nafni Martha Rudd og mun hafa eignast með henni þrjú börn. Var hún hjákona Wilkies í London en Caroline var meira eins og ráðskona á heimili hans.

Fyrsta sakamálasaga Wilkies kom út árið 1852 og nefndist Basil. Það var þó fyrst með fyrrnefndri sögu The Woman in White sem vinsældir hans sem sakamálahöfundar urðu verulegar. Kom hún fyrst út sem framhaldssaga í vikuriti Dickens, All Year Round, á árunum 1859-1860. Þar notaði hann fyrst það stílbrigði að láta marga aðila segja söguna, hvern frá sínu eigin sjónarhorni. Í kjölfarið komu svo sögurnar No Name (1862), Armadale (1866) og Moonstone (1868) sem festu hann enn frekar í sessi.

Hafa margir haldið því fram að Moonstone (1868) sé besta sakamálasagan sem skrifuð hafi verið, m.a. sakamálahöfundurinn Dorothy L. Sayers (1893-1957). Með henni nær Collins að fullkomna það stílbrigði sitt að segja söguna útfrá mörgum sjónarhornum í senn. Er talið að fáar sakamálasögur hafi haft jafn mikil áhrif á sakamálaskrif fyrr og síðar, ekki síst aðalpersónan Cuff lögreglufulltrúi, en enn þann dag í dag má finna vísun í hann í mörgum aðalpersónum slíkra bókmennta.

Frá því um 1860 þjáðist Collins af liðagigt. Fór hann brátt að nota afbrigði af ópíum til að lina þjáningar sínar og varð brátt háður því. Til að byrja með hafði það lítil áhrif á skrif hans enda voru vinsældir hans mestar á árunum frá 1860–1870. Þegar Dickens lést árið 1870 glataði hann ástkærum vini og læriföður og eftir það var eins og sköpunarmátturinn dofnaði og með þeim hurfu vinsældir hans.

Síðasta sagan Blind Will var gefin út árið 1890 að Collins látnum, en hann lést 23. september árið 1889.